Klúður á klúður ofan

Þrjóska manna við að útbúa almennilega samgöngumiðstöð ríður ekki við einteyming. Nú semja Ögmundur og Jón Gnarr um að bæta og efla úr sér gengna skúrabyggingu og kannski malbika eitthvað af bílastæðum. Og vitleysan heldur áfram. Fólk skal keyra hringinn í kringum völlinn til að geta nýtt sér þjónustuna. Verið er í vandræðum með strætó á Hlemmi og hugmyndin að flytja það í BSÍ, hús sem verður væntanlega rifið þegar spítalinn kemur. Ekki er verið að horfa til framtíðar með því að reisa almennilega samgöngumiðstöð fyrir flug, rútur, strætó og leigubíla einhvers staðar í grennd við Valssvæðið. Samgöngumiðstöð að því tagi myndi gagnast í umhverfismálum með því að draga úr ferðum milli staða.

 Ég hélt að Ögmundur stæði vörð um flugvöllinn, en það er kannski meira í orði en á borði. Púsluspil í svona litlum pörtum gagnast engum. Útbúa þarf heildstæða áætlun um veru vallarins í Vatnsmýri og með hvaða hætti, og vinna síðan út frá henni.


mbl.is Engin samgöngumiðstöð í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjá samninginn

Eitthvað eru menn að ræða um ESB aðlögunarferlið. Sumir vilja hætta viðræðum, einhverjir vilja sjá samninginn, en fáir virðast vilja ganga í Evrópusambandið. Hvað þýðir það að vilja sjá samninginn. Aðildarsinnar halda því mjög á lofti að vilja sjá samninginn og tala um frelsi í því sambandi, ég vil ekki gera mönnum upp að ljúga og tel því að þetta byggi frekar á vanþekkingu en öðru.

 

Hvað felst í samningnum? Samningurinn svokallaði er á ensku kallað Accession process eða á íslensku Innleiðingarferli eða Aðlögunarferli. Í því felst að ríki sækir um aðild og er innlimað í viðkomandi samband, þ.e. verður hluti af viðkomandi heild og undirgengst reglur þeirra. Menn hafa í því sambandi mikið deilt um hvort hvort hægt sé að segja sig úr ESB, en það er annað mál.

 

Ferlið byrjar á því að ríki sækir um aðild að sambandinu. Ríkið fær síðan spurningalista sem er svarað. Þá er útbúin skýrsla út frá því og send áfram innan ESB. Grænt ljós er gefið á samningaviðræður og rýniferli (screening process) hefst. Í rýniferlinu er farið í gegnum Aqui sambandsins (lög ESB) og borið saman við lög viðkomandi lands. Að loknu rýniferli, ef allt er jákvætt, er gefið út vottorð til að undirtakast (capacity to implement) að öðrum kosti er farið í samningaviðræður, ef eitthvað stendur út af. Þær viðræður fela í sér umræður um þann tíma sem það tekur viðkomandi ríki að innleiða það sem upp á vantar út frá rýniferlinu og hugsanlegar sértækar undanþágur eða aðstoð við inngöngu í sambandið. Viðkomandi stjórnvöld þurfa síðan að samþykkja samninginn, en flest lönd hafa skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Við erum núna stödd í rýniferli. Verið er að fara í gegnum 35 aqui kafla ESB þar sem búið er að opna 27 þeirra, af þeim eru 11 lokaðir, en í heildina á eftir að klára 24 kafla. Búið er að klára tæpan þriðjung þeirra. Meðal þeirra kafla sem eftir eru er m.a. efnahags- og peningamál, landbúnað, sjávarútveg, skattamál, EMU, tollamál og frjálst flæði fjármagns. Eins og sjá má eru þarna stór og umdeild mál sem eftir er að klára og miðað við hvernig gengur er ég ekkert bjartsýnn á framhaldið. Hvað stendur þá eftir til að semja um? Í landbúnaði má gera ráð fyrir sams konar ákvæði og Finnland fékk um norðlægan landbúnað. Líta má á Möltu í sambandi við sjávarútveg en þeir gerðu kröfu um 25 mílna landhelgi, en niðurstaðan varð að innan þessara 25 mílna mega öll skip ESB veiða ef þau eru innan við 12 metrar að lengd. Það er kannski eitthvað sambærilegt sem við gætum náð fram, eða hvað. Við erum með gjaldeyrirshöft sem þarf að semja um. Svo er stórt og flókið tollakerfi, sem er löngu komin tími á að hreinsa til í. Ég held að það gerist ekki með því að ganga í tollabandalag ESB. Þá má ekki gleyma gjaldmiðilsmálum. Það er eitt af skilyrðunum við að ganga í ESB að taka upp evru. Miðað við skuldastöðu og stöðugleika sem við höfum sýnt er það ekki að fara að gerast næstu 10 ár. Eina raunhæfa leiðin til að taka upp evru er að taka fyrst upp dollar til að fá stöðugleika og kröfu á ríki og sveitarfélög um aðhald eða atvinnuleysi.

 

Þegar menn tala um að vilja sjá samninginn, þá hljóta menn að hafa lagt upp með einhvers konar samningsmarkmið. Það væri gaman að fá að vita hvað er ásættanlegur samningur? Hvað getum við afsalað okkur miklu af sjávarútvegi, eins og t.d. makríl? Hver tekur ákvörðun um hvað mikið skuli veiða? Er sjálfsagt að ESB segi okkur að hætta hvalveiðum? Hvaða kröfur verða uppi í fjármálum ríkisins og hversu mikið þarf að draga saman? Hver er kostnaður okkar við að vera í ESB? Þessum og fleiri spurningum þarf að svara áður en aðildarviðræður hefjast. Þess vegna þarf að hætta viðræðum, svara þessum spurningum og efna svo til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðlögunarferli hefjist að nýju.


Flugvöllurinn Vatnsmýri

Vorið 1919 kom hingað flugmaður frá Danmörku að kanna aðstæður og benti hann á Vatnsmýrina. Í kjölfarið sækir Flugfélag Íslands um að bæjarstjórnin útvegi félaginu til kaups svæði í sunnanverðri Vatnsmýrinni. Fékkst þar tún til leigu, Briemstún, og var þar reist flugskýli og 3. september lyfti íslensk flugvél þar sér til flugs í fyrsta sinn frá íslenskri grund. Árið 1936 gerði Skipulag Reykjavíkur ráð fyrir flugvelli austan við Njarðargötu og sunnan Hringbrautar. Var flugstarfsemi í Vatnsmýrinni öðru hverju og lagðar fram nokkrar tillögur um úrbætur á flugaðstöðu á vellinum. En ekkert skeði fyrr en við hernám Breta 1940.

 

Gerði setuliðið 3 flugbrautir auk flugvélastæða og akbrauta og var Reykjavíkurflugvöllur formlega tekinn í notkun 4. júní 1941. Hann var síðan afhentur Íslendingum árið 1946. Flugturn var reistur á árunum 1958-60, kallaður gamli flugturninn í dag og millilandaflug Loftleiða hafði þar aðalbækistöð til 1962, er mikill bruni varð. Bertil M. Hellman gerði úttekt á flugmálum árið 1963 og mælti hann með gerð flugvallar á Álftanesi. Síðan var gerð skoðanakönnun um flugvöllinn 17. mars 2001 og vildu 14.259 flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, en 14.913 vildu að hann fari árið 2016, þá orðin 97 ára gamall. Kjörsókn var 37,2% og því vilja um 19% Reykvíkinga leggja niður flug.

 

Þetta er í stuttu máli saga Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri. En eini mögulegi flutningur flugvallarins var út á Álftanes, en sá möguleiki er ekki fyrir hendi í dag. Hólmsheiði verður aldrei nothæf sem heilsárs flugvöllur. Og því er eini raunhæfi möguleikinn, ef ætlunin er að flytja hann í dag, flutningur vallarins til Keflavíkur. Það hins vegar mun þýða að flug til Akureyrar og Hafnar í Hornafirði leggst niður, því langflestir keyra frekar. Það er því rétt að brýna fyrir þeim sem vilja völlinn ekki í Vatnsmýri að hætta að tala um að flytja flugvöllinn og tala um að leggja hann niður, það hljómar eðlilegra. Auk þess yrði krafa um öfluga heilsárs vegi háværari um allt land.

 

Að öðrum kosti er kominn tími til að menn geri það sem gera þarf í Vatnsmýri fyrir flugvöll sem kemur til með að þjóna okkur til framtíðar. Í fyrsta lagi þarf að reisa allsherjar samgöngumiðstöð einhvers staðar í grennd við Valsheimilið, og mætti jafnvel samnýta eitthvað þar bílastæði. Með því fæst mikill sparnaður og meirihluti borgarbúa þarf ekki lengur að keyra háfhring kringum flugvöllinn. Í öðru lagi þarf að lengja flugbrautina út í Skerjafjörð og útbúa göng undir hana, einnig er mögulegt að flytja þá braut á uppfyllingu út í Skerjafjörð eins og kynnt hefur verið ef hagkvæmt þykir.

 

Nú er vonandi að menn taki sig til og hætti að skrafa um þetta á leynifundum og festi völlinn okkar til framtíðar í Vatnsmýri. Síðan verði haldið veglegt hundrað ára afmæli flugs á Íslandi eftir 6 ár.

Hvað þarf mikla kauphækkun?

Ég hef verið að velta fyrir mér hvað orðið hefur af laununum hjá mér. Þau virðast skreppa saman. Eða hvað? Kannski er það annað sem hækkar hraðar. Í þessu sambandi hef ég verið að skoða ýmsa kostnaðarliði og bera saman hvað þeir hafa breyst. Í eftirfarandi töflu má sjá hvað ýmsir kostnaðarliðir hafa hækkað milli ára, þ.e. frá 2012 til núna 2013 og hækkun í prósentu milli ára:

           

Lán 1

5.067 kr

6,45%

Lán 2

1.183 kr

6,42%

Lán 3

458 kr

2,56%

Fasteignagjöld

7.443 kr

12,33%

OR - vatns og fráveitugj.

3.939 kr

6,20%

Tryggingar

7.274 kr

5,66%

 

Heildarhækkun á þessum kostnaðarliðum er því 25.364 kr. Ef við reiknum með 50% afföllum af launum (skattur, lífeyrir o.fl.) þá þarf rúmlega 38.000 kr. kauphækkun til að standa á sléttu milli ára.

Inni í þessum liðum eru liðir sem tilheyra fasteignaeigendum og ekki er hægt að losna við nema losa sig við eignina. Við sjáum þarna að afborgun lána, sem eru verðtryggð, hækkar um tæpar 7.000 kr. milli ára, þá er ótalin hækkun eftirstöðva sem leggst ofan á lánið.

Ef ég væri hjúkrunarfræðingur með um 400.000 kr í laun, eins og ég heyrði að einhver var með, þá þyrfti tæpa 10% hækkun bara til að vega upp á móti þessum kostnaðarliðum. Í þessum samningum, sem eiga að teljast góðir, er talað um 6,4%. Það þýðir að viðkomandi er að lækka í ráðstöfunartekjum milli ára miðað við þessa útreikninga mína. Það væri gaman að vita hvort aðrir væru með sömu niðurstöðu?
mbl.is Leiðréttingar launa eru varanlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilvalið fyrir okkur

Það væri ágætt ef við fengjum eitthvað brot af því sem Makaó er að fá fyrir fjárhættuspil, 5000 milljarða ísl. kr. Við þurfum að fara að leyfa fjárhættuspil, sem hluta af ferðamannaiðnaði. Hætta þessum hugsunarhætti að banna og fara hugsa um það sem við getum grætt. Það er gott að græða. Ríkið gæti fengið góðar tekjur af þessu og jafnvel farið að borga upp skuldir. Held það sé meiri möguleiki að verða stór á þessu sviði heldur en bankastarfsemi :) Auðvitað þarf að hafa ákveðanr reglur um svona starfsemi eins og t.d. aldurstakmark sem væri sjálfsagt það sama og fyrir áfengi.


mbl.is Meiri fjárhættuspil auka á bjartsýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabanki, verðtrygging og gjaldmiðill

Seðlabankinn er hættur að koma á óvart, eins og ég bloggaði um eitt sinn, en hlýða nú spámönnum bankanna í því sem þeir biðja um. Stýrivextir eru nú komnir í 6%, eftir að hafa farið lægst 4,25% í febrúar 2011. Helstu ástæður sem eru taldar til fyrir háum vöxtum eru lágt gengi og óvissa í efnahags og verðbólguhorfum. Tvær fyrri ástæðurnar eru vegna lélegrar ríkisstjórnar sem heldur að hægt sé að skattleggja sig út úr vandanum og er að leggja einstaklinga og atvinnulíf á hliðina auk þess að skapa óvissu í flestum atvinnugreinum. Síðasta ástæðan er að verðbólguhorfur batna ekki með hærri vöxtum þegar fyrirtæki og einstaklingar eru komin að fótum fram. Heldur fara þeir beint út í verðlagið og hækka verð, og lán einstaklinga hækka líka. Þetta dregur úr viðskiptum, sem væri ágætt ef verðbólga væri til komin vegna eyðslu.

 

Þessu er hins vegar þveröfugt farið hér. Nú þarf að auka eyðslu (eða draga úr skuldum) einstaklinga með lægri sköttum og vöxtum og koma atvinnulífi af stað til að það geti skilað tekjum og hækkað gengi krónunnar. Jafnframt því sem ríki og sveitarfélög þurfa að hysja upp um sig buxurnar í fjármálum og hætta að eyða um efni fram. Þá þarf einnig að afnema gjaldeyrishöftin, sem eru öllum til trafala og óeðlilegt inngrip í líf fólks.

 

Mörgum finnst sniðugt að taka óverðtryggt lán í dag. Ég er með verðtryggt lán og myndi alls ekki við þessar aðstæður vilja skipta á því og óverðtryggðu láni. Hvers vegna? Lán upp á 20.000.000 kr. með hækkun vaxta um 2% ber 400.000 kr viðbótar vaxtakostnað á ári. Með verðtryggðu láni fer hluti á afborgun og hluti á eftirstöðvar lánsins. Ef hins vegar lán er óverðtryggt leggst þetta á afborgun með fullum þunga, sem þýðir að mánaðarleg afborgun hækkar um rúm 33.000 kr. Ef vextirnir færu nú úr þessum 6% vöxtum sem þeir eru í dag í 18% eins og fyrir rúmum 4 árum síðan yrðu vextirnir 20.000.000 * 12% = 2.400.000 á ári, sem myndi þýða hækkun á afborgun um 200.000 kr. á mánuði á óverðtryggðu láni. Hvað ætli margir myndu ráða við þá hækkun?

 

Hvað er þá til ráða, hver er stefnan?

Það þarf að skapa stöðugleika svo það sé fýsilegt að taka óverðtryggt lán. Og það þarf að taka út þá sem valdið hafa óróanum undanfarin ár, þ.e. Seðlabanka, ríki og sveitarfélög. Það er að vissu leyti einfalt en þó ekki. Því miður er ég að komast á þá skoðun að við losnum ekki við gjaldeyrishöft nema skipta um gjaldmiðil. Verður manni þá hugsað til skýrslu Seðlabanka um framtíð í gjaldmiðlamálum þar sem fram komu tvær tillögur, sem báðar gerðu ráð fyrir áframhaldandi nánast óbreyttu hlutverki Seðlabanka, En óvænt niðurstaða!

 

Mín skoðun er sú að eina raunhæfa leiðin er að taka upp dollar. Þá fæst ákveðin stöðugleiki, og aðhald við ríki og sveitarfélög sem geta þá ekki vellt eyðslunni út í gengið. Þau gætu hins vegar aukið atvinnuleysi eða hækkað skatta og gjöld. Með upptöku dollars myndi hlutverk Seðlabanka nánast hverfa, stýrivextir yrðu plús einhver stig, og á nánast einu bretti myndum við uppfylla flest Maastricht skilyrði. En hvernig er þetta hægt?

Það þarf að byrja á því að koma atvinnulífinu af stað með lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Sérstaklega þarf að lækka tryggingargjald fyrirtækja og auka hvata þeirra til að ráða nýtt fólk. Með því minnkar atvinnuleysi og kostnaður ríkis og sveitarfélaga minnkar og tekjur aukast. Þá þarf einnig að lækka vexti þ.a. þeir verði sambærilegir við nágrannaríki. Það gæti haft eitthvað verðbólguskot í för með sér. Þessu þarf að gefa rúmt ár til að virka og þegar gengi gjaldmiðilsins og skuldir eru komin í það horf sem eðlilegt telst, þá er hægt á einu bretti að afnema gjaldeyrirhöft og taka upp annan gjaldmiðil.


Lélegar merkingar

Hér í Reykjavík eru víða afar lélegar merkingar gagnvart ökumönnum. Það er sett upp hraðahindrun og jafnvel gangstétt að, og gangandi vegfarendur halda auðvitað að þarna sé gangbraut, en er svo algjörlega ómerkt gangvart ökumönnum, nema hraðahindrunarmerki. Gamla Hringbrautin meðfram Landsspítala er gott dæmi um götu þar sem gangstéttir liggja að götunni en flest ómerkt gagnvart ökumönnum. Og Álfheimar er gott dæmi um götu með margar hraðahindranir en lélegar merkingar.

Síðan er nýji hjólreiðastígurinn meðfram Suðurlandsbraut sem þverar margar götur á leiðinni og yfirleitt ómerkt gagnvart ökumönnum. Spurning hvort við komum til með að sjá fjölgun á slysum hjólamanna þegar umferð þar eykst. Nema borgaryfirvöld taki sig til og merki betur, vona það alla vega!


mbl.is Ekið á 22 gangandi vegfarendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör í Reykjavík

Á morgun, laugardag, gefst okkur tækifæri til að ákveða í prófkjöri hvaða einstaklingar leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir næstu Alþingiskosningar. Í boði eru 19 frábærir og öflugir einstaklingar sem má treysta til góðra verka á næsta þingi.

 

Nú er lag að hafa áhrif. Og um að gera að fjölmenna á kjörstað og velja þá sem okkur líst best á. Okkar bíður erfitt verk að hreinsa til eftir óstjórn á þessu kjörtímabili. Og hefja hér á landi nýja velferð. Þess vegna þarf öflugan hóp sem fær góða kosningu í vor. Ég vil sérstaklega vekja athygli á framtíðar leiðtoga okkar Hönnu Birnu sem býður sig fram í 1. sæti. Að öðrum kosti verður valið afar erfitt og að öllum líkindum kemur til með að muna mjög litlu á frambjóðendum. Og spenna fram eftir kvöldi á morgun.

 

Kosið er á 5 stöðum frá 9:00-18:00, á eftirtöldum stöðum í Reykjavík:

Ø  Valhöll, Háaleitisbraut

Ø  félagsheimili Mjódd, Breiðholti

Ø  félagsheimili Hverafold Grafarvogi

Ø  félagsheimili Hraunbæ, Árbæ

Ø  Hótel Saga

Allar nánari upplýsingar um prófkjörið og frambjóðendur má finna á xd.is

 

Ég vil hvetja alla Sjálfstæðismenn til að fjölmenna á morgun.


Elliðaárdalur

Ég skellti mér á stofnfund Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins í gærkvöldi. Þetta var fjölmennur fundur sem haldinn var í félagsheimili Orkuveitunnar. Fyrst talaði Stefán um dalinnEllidardalur2439 og minntist á fyrstu gróðursetningu í dalnum og skíðabrekku. Þá kom Björn og ræddi um skipulagsmál dalsins, þörf á því að afmarka dalinn greinilega en einnig um að þétta byggð að dalnum sem mér líst ekkert of vel á, spurning hvenær verður stoppað. Þá var kosinn stjórn og gengið frá lögum félagsins.

Ég hef alltaf haft gaman af að ferðast um Elliðaárdalinn, hjóla þar reglulega á sumrin er maður tekur smá túr kringum Breiðholtið. Og á veturna er gaman að ganga um svæðið. Það er orðið merkilega þéttur skógur þarna, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem er mikil breyting frá því er hverfið var að byggjast upp og maður lék sér þarna í indíanagili og fleiri stöðum.


Gott að Seðlabankinn komi á óvart

Það er nefnilega slæmt ef menn geta gengið að því sem vísu hvað gerist. Spurning hvort menn geti þá farið að taka sér stöðu með og móti vaxtahækkunum, þ.e. til að græða á hækkun eða lækkun vaxta. Nú gerðu flestir ráð fyrir hækkun, en ekkert gerðist og urðu mikil viðskipti í morgun.

Mér finnst þetta alltaf spurning hvort kemur á undan hænan eða eggið. Ef Seðlabanki héldi nú áfram að koma á óvart og myndi t.d. við næsta vaxtaákvörðunardag lækka vexti, myndi þá ekki verðbólgan koma niður á eftir. Ég tala nú ekki um ef opinber fyrirtæki myndu draga allt of miklar árlegar hækkanir sínar til baka.


mbl.is Ákvörðunin kom skemmtilega á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband