13.5.2022 | 11:18
Hvað er milljarður?
Eiga ekki allir milljarð kr. á lausu. Er milljarður kr. ekki bara smápeningar sem allir eiga. Eitthvað sem hægt er að hrista fram úr erminni. Stjórnmálamenn tala þannig að hlutir kosti bara nokkra milljarða. En hvað er milljarður? Í tölum er það 1.000.000.000 kr. sem er sama og 1.000 milljónir kr., til að fækka aðeins núllunum. Ef við tökum, sem dæmi meðaleinstakling sem hefur 500.000 kr. útborgaðar á mánuði. Þá er þessi einstaklingur ekki nema tæp 167 ár að safna fyrir 1 milljarði kr., ef hann þarf ekki að borga neitt annað og fær enga vexti. Það tekur sem sagt smá tíma ef maður er einn. Ef við reynum aðeins að fjölga í hópnum þá þarf ekki nema 2.000 þannig einstaklinga til að fá 1 milljarð kr.
Við skulum sleppa því að horfa á einstakling og horfa á mannfjölda. Þá hlýtur þetta að fara að gerast. Samkvæmt Hagstofu voru íbúar Reykjavíkur 135.688 þann 1. janúar 2022 og íbúar höfuðborgarsvæðisins voru 240.368. Þegar talað er um höfuðborgarsvæðið er átt við alla íbúa Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Ef við tökum þennan milljarð og deilum honum á alla íbúa Reykjavíkur, þá er það ekki nema 7.370 kr. á mann, bæði unga sem aldna. Og miðað við höfuðborgarsvæðið yrði það um 4.155 kr. á mann. Það er nú ekki svo mikið á hvern.
Ef við förum nú að skoða ýmsan kostnað þá er hlutur Reykjavíkur í rekstrarkostnaði Hörpu ekki nema 0,5 milljarðar kr., það gera 3.685 kr. á hvern einstakling á ári. Ríkið er einnig að borga 0,5 milljarða kr. árlega.
Nú vandast málið aðeins þegar maður fer að skoða Borgarlínu verkefnið. Það virðist erfitt að finna haldbærar tölur fyrir það. Eins og menn hafi eitthvað að fela þar. Fyrsta framkvæmdalota þess, 14 km, frá frá Ártúnshöfða niður í miðbæ, yfir Fossvog og í Hamraborg, hefur áætlaðan heildarstofnkostnað upp á 24,9 milljarða kr.. Og þá vantar rekstrarkostnað. Þessum kostnaði deilt niður á borgarbúa gefur 183.509 kr. sem dreift á 5 ár, gefur 36.701 kr. á einstakling á ári auk rekstrarkostnaðar og fargjalda, sem við vitum ekki. Og þetta er bara fyrsti hluti af 6.
Einhvers staðar fann ég það að árið 2040, ætti Borgarlínan að vera orðin 40 km og heildarkostnaður þá 70 til 150 milljarðar kr. Ef við skiptum þessari upphæð niður á íbúa alls höfuðborgarsvæðisins, og reiknum með meðaltalinu 110 milljarðar kr., þá gefur það 457.118 kr. á hvern einstakling. Ef við reiknum nú með að þessi upphæð skiptist jafnt á 17 ár þá er það 26.889 kr. á ári. En nú eru ekki allir stakir svo við skulum reikna með 4 manna fjölskyldu, það gefur þá 107.556 kr. á fjölskyldu á ári auk rekstrarkostnaðar og fargjalda, sem við vitum ekki.
Þetta er nú ekki svo há upphæð segja menn, eigandi von á hágæða strætisvagnakerfi. Ætli fólk borgi svo líka farmiða upp á 500 kr. fyrir hverja ferð, eða verður kostnaðurinn eithhvað margfalt hærri að því þetta er svo fínt. Auk þess sá ég í einu skjalinu að óvissa í upphæðum væri um 40%. Og eins og við vitum eru útreikningar hins opinbera og sveitarfélaga þekkt fyrir að fara fram úr áætlunum. Ég held við ættum ekki að treysta stjórnmálamönnum sem tala frjálslega um upphæðir. Tala nú ekki um ef menn vilja ekki ræða kostnað yfir höfuð eða birta hann ekki. Kannski er ég bara svona neikvæður að finnast þetta mikil upphæð.
Kjósum ekki stjórnmálamenn sem lofa einhverjum glansmyndum, en tala aldrei um kostnað eða fjármögnun við þær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.