5.4.2013 | 22:14
Flugvöllurinn Vatnsmýri
Vorið 1919 kom hingað flugmaður frá Danmörku að kanna aðstæður og benti hann á Vatnsmýrina. Í kjölfarið sækir Flugfélag Íslands um að bæjarstjórnin útvegi félaginu til kaups svæði í sunnanverðri Vatnsmýrinni. Fékkst þar tún til leigu, Briemstún, og var þar reist flugskýli og 3. september lyfti íslensk flugvél þar sér til flugs í fyrsta sinn frá íslenskri grund. Árið 1936 gerði Skipulag Reykjavíkur ráð fyrir flugvelli austan við Njarðargötu og sunnan Hringbrautar. Var flugstarfsemi í Vatnsmýrinni öðru hverju og lagðar fram nokkrar tillögur um úrbætur á flugaðstöðu á vellinum. En ekkert skeði fyrr en við hernám Breta 1940.
Gerði setuliðið 3 flugbrautir auk flugvélastæða og akbrauta og var Reykjavíkurflugvöllur formlega tekinn í notkun 4. júní 1941. Hann var síðan afhentur Íslendingum árið 1946. Flugturn var reistur á árunum 1958-60, kallaður gamli flugturninn í dag og millilandaflug Loftleiða hafði þar aðalbækistöð til 1962, er mikill bruni varð. Bertil M. Hellman gerði úttekt á flugmálum árið 1963 og mælti hann með gerð flugvallar á Álftanesi. Síðan var gerð skoðanakönnun um flugvöllinn 17. mars 2001 og vildu 14.259 flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, en 14.913 vildu að hann fari árið 2016, þá orðin 97 ára gamall. Kjörsókn var 37,2% og því vilja um 19% Reykvíkinga leggja niður flug.
Þetta er í stuttu máli saga Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri. En eini mögulegi flutningur flugvallarins var út á Álftanes, en sá möguleiki er ekki fyrir hendi í dag. Hólmsheiði verður aldrei nothæf sem heilsárs flugvöllur. Og því er eini raunhæfi möguleikinn, ef ætlunin er að flytja hann í dag, flutningur vallarins til Keflavíkur. Það hins vegar mun þýða að flug til Akureyrar og Hafnar í Hornafirði leggst niður, því langflestir keyra frekar. Það er því rétt að brýna fyrir þeim sem vilja völlinn ekki í Vatnsmýri að hætta að tala um að flytja flugvöllinn og tala um að leggja hann niður, það hljómar eðlilegra. Auk þess yrði krafa um öfluga heilsárs vegi háværari um allt land.
Að öðrum kosti er kominn tími til að menn geri það sem gera þarf í Vatnsmýri fyrir flugvöll sem kemur til með að þjóna okkur til framtíðar. Í fyrsta lagi þarf að reisa allsherjar samgöngumiðstöð einhvers staðar í grennd við Valsheimilið, og mætti jafnvel samnýta eitthvað þar bílastæði. Með því fæst mikill sparnaður og meirihluti borgarbúa þarf ekki lengur að keyra háfhring kringum flugvöllinn. Í öðru lagi þarf að lengja flugbrautina út í Skerjafjörð og útbúa göng undir hana, einnig er mögulegt að flytja þá braut á uppfyllingu út í Skerjafjörð eins og kynnt hefur verið ef hagkvæmt þykir.
Nú er vonandi að menn taki sig til og hætti að skrafa um þetta á leynifundum og festi völlinn okkar til framtíðar í Vatnsmýri. Síðan verði haldið veglegt hundrað ára afmæli flugs á Íslandi eftir 6 ár.
Athugasemdir
Takk fyrir gott blogg um Flugvöll allra landsmanna, það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að Reykjavík þarf að leggja eitthvað af mörkum fyrir það sem hún fær fyrir það að vera höfuðborgin, hún þarf að gefa ekki bara þiggja. ef Reykvíkingar vilja ekki hafa flugvöllinn er þá ekki réttast að byggja nýjan Landspítala og flytja stjórnkerfið eitthvað þangað sem flugvöllur er sem er sátt um , td. Akureyri eða Egilstaði.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 5.4.2013 kl. 23:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.