Annað hvort eða

Ég hlustaði á útvarpið í morgun þar sem rætt var við ferðafrömuð. Hann talaði um að rétt væri að flytja Reykjavíkurflugvöll til Keflavíkur og bjóða ferðamönnum þá upp á beint flug út um allt land. Einnig talaði hann um að Reykjavík væri sennilega mest sótti ferðamannastaðurinn og fólk yrði greinilega vart við það ef það gengi um miðbæinn. Það er sjálfsagt rétt hjá honum en spurning hversu lengi það myndi endast ef flugvöllurinn færi?

 

Þetta er annað hvort eða talsmáti, sem einkennir soldið þessa umræðu um flugvöllinn. Og mér finnst hann ennfremur sýna mikið skilningsleysi á framsetningu sinni, nema það sé hugmynd hans að draga úr ferðamannastraumi til Reykjavíkur. Ef áhugi væri fyrir því hjá ferðamönnum að fljúga beint frá Keflavík eitthvað út á land, sé ég ekki að það ætti að vera vandkvæðum bundið að bjóða upp á þá þjónustu, sama hvað verður með Reykjavíkurflugvöll. Það ætti að snúast um framboð og eftirspurn.

 

Mér finnst við eigum að hætta þessu annað hvort eða og fara að bjóða upp á valkosti. Leyfa fólki að velja það sem því finnst heppilegast. Mér finnst nær að efla Reykjavíkurflugvöll. Heimila t.d. flugvélum sem uppfylla ákveðna hávaða- og mengunarstaðla að lenda í Reykavík. Það gætu þá orðið flugvélar sem fljúga á styttri leiðum til nágrannalanda okkar eins og t.d. færeyingar, sem hafa sótt um leyfi til að fljúga hingað á örlítið stærri vélum en Fokker.

 

Þá fer maður að spá í samgöngur og umferðarmál. Í dag, ef maður ætlar að skreppa til London þarf fyrst að keyra í tæpan klukkutíma og síðan flug út. Væri ekki nær að geta tekið leigubíl eða strætó í 10-15 mín út á flugvöll og fljúga síðan beint til London. Eða jafnvel taka innanlandsflug að hámarki klukkutíma og síðan beint flug til London. Þess vegna eigum við að efla Reykjavíkurflugvöll.

 

Tökum íbúa á Akureyri sem langar í leikhús, tónleika eða þarf að sinna einhverjum erindum í Reykjavík. Hann hefur tvo möguleika, annað hvort flug eða bíll. Gefum okkur að búið sé að breyta gjöldum þ.a. þessir tveir samgöngumátar kosta jafnmikið. Hann hefur þá val um að fara með flugi tæpan klukkutíma og síðan leigubíl eða strætó á hótel í miðbæ Reykjavíkur. Eða nota einkabíl í 4 tíma keyrsla í miðbæ Reykjavíkur að hótelinu. Hvorn möguleikann tækir þú?

 

Nú er markmið þeirra sem stjórna í borginni að fækka bílum og hvetja fólk til að ganga eða hjóla. Á sama tíma stefna þessi sömu yfirvöld á að fjarlægja flugvöllinn úr Reykjavík. Væri ekki nær að efla flugið og gefa fólki kost á að velja. Koma upp öflugu innanlandsflugi og gera það samkeppnishæfara við bílinn með því að lækka gjöldin á því. Nú er það þannig að þeir sem eru í innan við 300 km fjarlægð við borgina koma á bíl þangað. Það má kannski snúa þessu við og efla flugvelli á t.d. Blönduósi (244 km) og Hellu (93 km) og draga þannig úr umferðinni. Það þarf ekki miklar breytingar á núverandi flugvelli, eins og t.d. Ómar hefur bent á. Það er kannski helst að vanti samgöngumiðstöð sem ég hef nefnt hér áður.

 

Ég tel að ef þessi ferðafrömuður fengi að ráða og við færðum innanlandsflug til Keflavíkur þá værum við nánast að leggja það niður. Það yrði eingöngu flogið á Egilsstaði og Vestmannaeyjar, og þaðan væri auðvitað hávær krafa um göng til lands. Menn hefðu ekki lengur val um ferðamöguleika, heldur væri einkabíllinn eini raunhæfi kosturinn. Það hefði í för með sér kröfur um miklu öflugra vegakerfi. Er það það sem þú vilt?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband